Í Sveitarfélaginu Hornafirði eru mikil og merk ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum​

Ummerkin eru ýmsar tegundir jarðlægra minja, m.a. tóftir bæjarhúsa og annarra mannvirkja tengdum þeim. Þau eru vitnisburður um búsetu og mannlíf á tilteknu svæði frá mismunandi tímum. Minjar margra þessara fornu býla eru langt utan alfararleiðar og vitneskjan um tilurð og umfang þeirra ekki mörgum ljós.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit hófu samstarf í apríl 2020 um skráningu þessara fornu býla með ítarlegum hætti. Megin tilgangur verkefnisins er að stuðlað að því að landfræði- og söguleg þekking á búsetuminjum frá liðinni tíð verði varðveitt og gerð kunn almenningi. Að gera sýnilegan merkilegan þátt í sögu forvera Austur-Skaftfellinga, sem margir hverjir bjuggu við sérstakar aðstæður þar sem fjölskyldur flæmdust á milli staða vegna ágangs jökla, jökuláa, jökulhlaupa og annarra náttúruhamfara. Erfiðar aðstæður sem fylgdu í kjölfarið urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði.

Þannig gerum við söguna sýnilegri næstu kynslóðum, um leið og staðbundin þekking er skráð og varðveitt.

Sunnan við sand

Vestasta bæjarhverfi kallast Sunnan við Sand og íbúarnir Sunnsendingar. Landsvæði þess nær frá Steinvötnum í austri að mörkum Suðursveitar og Öræfa á Breiðamerkursandi í vestri. Áður fyrr var hverfið kallað Fellshverfi, með skýrskotun til höfuðbólsins Fells undir samnefndu fjalli austast á sandinum. Árið 1850 voru býlin 10 alls í bæjarhverfinu en munu hafa verið 12 meðan hjáleigur Fells voru í byggð, þó ekki öll samtímis. Búsetusaga eyddra býla er skráð hér, m.a. Fells og Steina undir Steinafjalli, ásamt staðarlýsingum.

Miðþorp

Miðþorp eða Þorpið nefnist byggðin milli Staðarár og Steinasands og íbúar Miðþorpsmenn. Árið 1850 voru 10 ábúendur í Þorpinu með heimajörðunum Kálfafelli og Kálfafellsstað. Undir Staðnum lágu nokkrar hjáleigur í gegnum aldirnar, sem enn má sjá ummerki eftir í landi Miðþorps. Hér er dregin fram saga þessara fornu hjáleigna og annarra leiguliða, m.a. frá Butru og Hellum.

Borgarhöfn

Borgarhöfn er annað bæjarhverfið í Suðursveit, talið að austan. Land þess afmarkast af Hestgerðiskambi í austri og Staðará í vestri, með fjörumörkin við Hálsós og Bjarnahraun. Íbúarnir í Borgarhöfn kallast Borghefningar. Borgarhöfn var skráð sem ein jörð í heimildum frá 18. öld en ávallt með mörgum býlum sem báru hvert sitt nafn. Árið 1850 voru skráð 11 býli í byggð í Borgarhöfn en 100 árum síðar átta ábúendur. Í Borgarhafnarlandi er víða að finna fornar búsetuminjar m.a. frá 18.öld eins og  í Græntanga, Helluhrauni og Ekru. Samantekt á búsetusögu þeirra er kynnt hér.

Mörk

Austasta hverfi Suðursveitar nær frá mörkum Suðursveitar og Mýra í austri að Hestgerðiskambi í vestri og hefur verið kallað Mörk og íbúarnir Merkurmenn. Um 1850 voru skráð 12 býli í byggð á Mörkinni, í dag eru þau 5-6. Hér segjum við frá nokkrum þeirra er farið hafa í eyði fram undir aldamótin 1900, m.a. Sævarhólum, Austurlandi, Nípum og Skálafellsseli.

Um vefinn

Fjölnir Torfason, Þorbjörg Arnórsdóttir og Sigríður Guðný Björgvinsdóttir

Verkefnisstjórar

  • Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Menningarmiðstöð Hornafjarðar
  • Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason, Þórbergssetur

Aðrir starfsmenn

  • Vettvangsvinna: Anna Soffía Ingólfsdóttir, Menningarmiðstöð Hornafjarðar
  • Myndataka með flygildi: Kristinn Fjölnisson, Þórbergssetur
  • Umsjón vefsíðu: Heiðar Sigurðsson, Þórbergssetur

Gera verður ráð fyrir að við frekari úrvinnslu komi fram ýmsar viðbætur þar sem það á við. Upplýsingar um fleiri eyðibýli verða settar inn á vefinn á næstu vikum eftir því sem verkinu vindur fram. Allar ábendingar eru vel þegnar og má senda á netfangið info@busetuminjar.is.  Ef þú vilt fá tölvupóst þegar nýtt efni kemur á vefinn geturðu skráð þig á póstlistann með því að smella hér.

Scroll to Top